Innidagar í Árskóla


Þar sem veður gerast válynd þessa dagana gripu vinaliðar Árskóla til þess ráðs að vera með leiki inni í íþróttahúsi mánudag og þriðjudag. Salnum var skipt í svæði og fóru krakkarnir í Stinger, götukörfubolta, skotbolta, ogo-sport og trampolínstökk. Þátttakan var afar góð og mikið fjör í salnum þar sem krakkar frá 4. – 6. bekk sprettu úr spori á eftir boltum af ýmsum stærðum og gerðum eða svifu um loftið í glæsilegum trampolín-stökkum. Myndir frá fyrri innideginum má sjá hér.

Auglýsingar

Vinaliðar


Nú hefur fyrsti hópur vinaliða lokið vinnu sinni í Árskóla og er óhætt að segja að þeir hafi staðið sig með miklum sóma. Til þess að þakka vel unnin störf var krökkunum boðið í skíðaferð á skíðasvæði Tindastóls í byrjun febrúar ásamt öðrum vinaliðum í Skagafirði og var mikið fjör í fjallinu eins og myndir sem fylgja þessari frétt bera með sér. Vinaliðar Árskóla voru svo heiðraðir sérstaklega á íþróttadegi skólans 12. febrúar.
Um leið og við þökkum fyrstu vinaliðunum samstarfið bjóðum við þá næstu velkomna til leiks en þeir munu hefja störf í fyrstu viku eftir vetrarfrí.
Myndir frá skíðaferðinni

Leikir í frímínútum

Í vetur hafa vinaliðar á miðstigi staðið fyrir ýmiskonar afþreyingu í löngu frímínútum og því oft mikið fjör á skólalóðinni í allskonar leikjum, gömlum og nýjum. Venjulega skipuleggja vinaliðar tvær vikur fram í tímann og er leikjaskipulagið hengt upp í bekkjarstofum á miðstigi en nú verður það einnig aðgengilegt á heimasíðu Árskóla. Hægt er að nálgast leikjadagskrá næstu tveggja vikna, 21. – 31. jan, hér.

Lifa – LEIKA – læra


Í október hóf vinaliðaverkefnið formlega göngu sína í Árskóla en það gengur út á að hvetja nemendur til meiri þátttöku í hverskyns hreyfingu í frímínútum og skapa um leið betri skólaanda. Markmiðið er að bjóða nemendum fjölbreyttara úrval afþreyingar í löngu frímínútum þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi.

Undanfarinn mánuð hafa 22 vinaliðar á miðstigi staðið fyrir ýmiskonar afþreyingu, allt frá hlaupa- og boltaleikjum til kastleikja og dans. Hafa krakkarnir skemmt sér við gamla og góða leiki en einnig lært nýja, s.s. Sprengjuleik, Indiana Jones, Klósettdraug og Las Vegas. Það hefur því verið mikið fjör á skólalóðinni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.